fimmtudagur, janúar 16, 2003

Mun rólegra í dag en í gær. Og auk þess verð ég komin í helgarfrí eftir tæpa 2 tíma.

Lífið virðist smám saman vera að komast í lag eftir hátíðirnar. Kókbannið hefur tekist nokkuð vel og mér er loksins hætt að líða eins og gæti sprungið á hverri stundu. Það var skrítið að finna aftur fyrir svengdartilfinningu. Svefninn er reyndar enn í algjöru rugli. Mér sýnist að ég og annar sambýlingur minn séum komnar á usa austurstrandartíma, í nótt fórum við að sofa rétt fyrir fimm og hún kom og vakti mig um hálf tvö í dag. En New-Yorkbúinn er farinn svo við verðum að fara að gera eitthvað í þessu. Ég verð allavega að laga þetta um helgina því á mánudaginn mæti ég klukkan níu í vinnuna.

Það er plan fyrir helgina. Við ætlum að bjóða Ásu ásamt litlu dóttur hennar í mat. Þetta myndi ekki teljast til tíðinda nema af því að við höfum ekki talast við síðan síðasta sumar. Það voru og eru "góðar" ástæður fyrir þessu sem er alltof langt og leiðinlegt mál að fara út í hér. En allavega þetta er auðvitað tóm vitleysa þar sem Ása flytur bráðum út og við erum allar fullorðnar manneskjur. Svo...vonandi kemst hún.
Hitt sem ég ætla gera er nokkurskonar heimaverkefni úr vinnunni. Ég er semsagt send heim með fartölvu og gprs síma og á að prófa að setja þetta upp og tengjast og svoleiðis. Þetta verður fróðlegt þar sem ég er ekki beinlínis tækni- eða tölvuvæn manneskja. Kannski reyni ég að blogga í gegnum fartölvuna og gprs símann um helgina. Það yrði þá fyrsta færsla utan vinnu.
Á morgun ætla ég svo líka í leikfimi, hrista spikið eins og Auður.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home