föstudagur, maí 09, 2008

Einn átakanlegasti atburður æsku minnar var þegar ég, u.þ.b. 10 ára gömul, fór ég hina árlegu skólaskoðun og í ljós kom að ég var nærsýn og þurfti gleraugu. Ég var afskaplega reið og sár og grét mikið yfir þessum hræðilegu örlögum. Lífið var búið, ég yrði hræðilegur gleraugnaglámur það sem eftir væri ævinnar. Ég man að augnlæknirinn sagði við mig að ég gæti ekki búist við því að vakna einn daginn og sjónin hefði lagast, þó myndi sjálfsagt draga eitthvað úr nærsýninni eftir fimmtugt. Mér fannst þessi augnlæknir heimskur að halda að ég væri svo mikið barn að halda svona nokkuð. Hann var svona álíka gáfulegur og læknirinn á Blönduósi sem reyndi að hugga mig þegar ég fékk gat á hausinn um 5, 6 ára aldurinn með því að segja að plásturinn sem færi á hausinn á mér væri í mörgum litum. Eins og það skipti einhverju andsk.. máli.
En allavega, þessi augnlæknir gat náttúrulega ekki vitað hvernig tækninni átti eftir að fleygja fram því á laugardaginn síðasta vaknaði ég með nánast 100% sjón eftir laser aðgerðina frá deginum áður. Fór í tékk í morgun og allt lítur svona vel út og nú má ég fara að mála mig aftur um augun og fara í ræktina. Þetta er ótrúlega skrítið, stend mig að því að laga gleraugun og teygja mig eftir þeim þegar ég vakna. En þetta er frábært, algjört æði, ég er í raun og veru að skrifa þetta með berum augum.

Smá tuð að lokum, last mánaðarins (ef ekki misserisins) fær minn gamli atvinnurekandi Síminn. Ég er sjónvarpslaus (hlaut að vera fyst ég er að skrifa þetta) og sé fram á að vera það alla helgina vegna einhvers pikkles í kerfinu hjá þeim. En jæja nóg um það, sumarið er að koma, með sumarfríi, splunkunýju frændsystkini og fleiri skemmtilegheitum.

Þangað til næst.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ég get nú ekki annað en óskað þér innilega til hamingju með nýju sjónina! ÉG fékk mína 19. desember og er enn að dásama þetta gleraugna/linsulausa líf og er alltaf jafn hissa þegar ég vakna á nóttunni/morgnanna og ætla fram úr, opna augun og sé allt 100%.
Megasnilld :)
kv. Erla María

5:09 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Sæl Þóra
Hvernig er þetta ætlar þú ekki að skrá þig á ma98.net ?!! Kommon, styttist í afmælið, bekkjarpartý, kassinn og svona. Kíktu, skráðu þig, settu inn viðtal og skráðu þig í óvissuferð....

Tjus Eva bekkjarfélagi

1:08 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home