þriðjudagur, janúar 23, 2007

Ligg í tvíbreiðu rúmi í herbergi á 21. hæð á Radison SAS Plaza hotel í Osló. Ég labbaði framhjá þessu hóteli á hverjum degi þegar ég var hér í starfsnámi fyrir rúmum tveimur árum síðan, átti heima í fimm mínútna göngufjarlægð héðan. Þetta er ægilega fínt hótel, hæsta bygging í Osló, 34 hæðir. Hér eru jakkafata klæddir karlmenn í miklum meirihluta, flestir sjálfsagt ægilega merkilegir og mikilvægir innan skandinavíska viðskiptaheimsins.
Fór áðan í dinner á arabískan veitingastað. Þar sat ég á púða á gólfinu við lág borð og milli rétta skemmti magadansmær okkur. Hún var mjög flott, ekkert anorexíu bull þar á ferð heldur alvöru kona með línur. Lambakjötið í aðalrétt var líka algjört æði.
Eina vandamálið ef svo skyldi kalla eru lyfturnar. Þær eru nefnilega of hraðskreiðar. Maður er bara nokkrar sekúndur neðan af 1. hæð upp á 21. og fæ alltaf í eyrun á leiðinni og skrítna tilfinningu í höfuðið. En eyrun á mér hafa svosem alltaf verið extra viðkvæm og glætan að ég nenni að labba þetta til að losna við þessi óþægindi.

Jæja farin að sofa. Vaknaði 4 í morgun eftir takmarkaðan svefn. Hilsen fra Norge.

laugardagur, janúar 20, 2007

Er einhver þarna úti sem býr svo vel að eiga vídjótæki? Og langar að taka upp Bráðavaktina fyrir mig á miðvikudaginn og bjóða mér svo í heimsókn í framhaldinu? Ég er nefnilega að fara til Ósló á þriðjudaginn og kem heim á fimmtudaginn og missi því að þættinum góða. Í lok síðasta þáttar var allt hers höndum, enn meira en venjulega, og langar mig að sjá hvernig rætist úr.

Fyrir utan fyrirhugaða Óslóferð er helst í fréttum að ég er byrjuð á frönskunámskeiði hjá Alliance Francaise. Ég hef komist að því í þessum tveimur tímum sem ég hef mætt í að ég er ágæt í málfræðinni og get lesið svolítið en ég skil ekki rassgat og framburðurinn er hörmulegur. En þetta stendur allt til bóta því tilgangur námskeiðsins er jú að bæta þetta.