laugardagur, desember 30, 2006

Ligg í leti í sveitinni. Ósköp ljúft en þetta fer nú að verða gott. Næstsíðasti dagur ársins og því ekki seinna vænna en að gera upp árið sem er að líða. Tíðindalítið, átakalaust og þægilegt eru orð sem koma upp í hugann. Þetta var svona nokkurs konar hvíldarár, hef aldrei unnið eins lítið og hvílt mig jafn mikið. Ársins verður því ekki minnst mikið í mínum persónulegum sögubókum. En nú er mál að linni, nú skal brett upp ermar og hafist handa á nýju ári. Nóg eru verkefnin.

mánudagur, desember 25, 2006

Jólin:
-Allt marautt á Ströndinni, er ekki vön þessu og kann ekki við þetta.
-Kvef í hundraðasta skipti í haust. Verð að gera e-ð í þessu á nýju ári.
-Morgunmatur á jóladag: Skinkuhornin hennar mömmu og svalandi coca-cola drykkur.
-Bó er ekki sem verstur.
-Jólagjafir í góðu meðallagi.
-Duldið skrítið að hafa ekki litlu systur.

Gleðileg jól, auf wieder.

mánudagur, desember 18, 2006

Gerði góða reisu norður í land um helgina. Akureyri skartaði sínu fegursta, skreytt jólasnjó og jólaljósum. Að vísu var skítakuldi, upp undir 20 stig á laugardaginn, en það var logn svo þetta var allt í lagi. Fórum á snjósleða í gær og ég keyrði sleða sjálf í fyrsta sinn. Mjög gaman og ég vona bara að það verði enn einhver snjór um nýárið. Ekkert gaman að koma svo suður í rigninguna.

Og drengurinn heitir Atli Þór sem er eftir mér og Atla föðurbróður hans.

fimmtudagur, desember 14, 2006

Nú verð ég að monta mig, fékk 9 í frönskuprófinu. Lélegast var framburðarprófið þar sem ég fékk 7 en í stílnum þar sem ég átti að skrifa um fjölskyldu mína og áhugamál fékk 19 stig af 20 mögulegum. Ég kann semsagt að segja frá því á frönsku að ég eigi foreldra og litla systur, hún eigi svo tvö börn, ég elski þau öll ægilega mikið, ég leiki á rauðan gítar í frístundum (rauður til að sýna hvað ég er klár í stöðu lýsingarorða) og skokki en hafi lítinn tíma því ég vinni svo ægilega mikið.
Eins og kunnugir sjá, er sumt þarna satt en annað logið eða í það minnsta stórlega ýkt. En 9-an stendur.

mánudagur, desember 11, 2006

Ég held ég sé bara að verða ónýt. Kvef á fimmtudag og föstudag, ógleði og höfuðverkur með hléum um helgina og í morgun vaknaði ég með snert af hálsbólgu. Þetta var nú samt nokkuð pródöktiv helgi, fór í brönsj á laugardaginn sem var smakkaðist ægilega vel, í klippingu og litun fyrir skírnina um næstu helgi og keypti jólagjafir handa Eyfirðingunum mínum.

Rosalega er orðið dimmt hér í Reykjavíkinni. Og enn dimmara ef út í það er farið fyrir norðan. Í morgun kom sólin upp 21 mín. seinna á ströndinni en hér í Reykjavíkis og sest á eftir 40 mín. fyrr en hér. Ergo, þetta gæti verið verra.

föstudagur, desember 08, 2006

Var í frönskuprófi í dag og gekk bara sæmilega held ég. Fyndið að fara aftur í próf í menntaskóla eftir margra ára hlé. Nú var þó ekkert stress í gangi eins og stundum þarna í den, aðalmálið var að finna réttu stofuna í Versló. Prófið var líka eftir því, gerði þetta svona eftir tilfinningu og las eitthvað minna yfir í lokin.
Nú ligg ég svo hérna upp í sófa, ein heima með guðsyni mínum, með ógeðslegt kvef. Já, ég er bara hálfslöpp og ætla að taka því rólega þessa helgi. Næstu helgi verður svo mikið stuð í skírn fyrir norðan. Nú er það vídjó, tók tvær kerlingamyndir til að liggja yfir.

mánudagur, desember 04, 2006

Fékk hland fyrir mitt litla, níska hjarta í morgun. Pantaði mér nefnilega flug, til og frá Akureyri aðra helgi og frá Akureyri til Reykjavíkur 2. janúar. Þetta kostaði rúmlega 20 þús. svo það er eins gott að það verði gaman um jólin. Fæ annars heila 10 daga í jólafrí sem ég ætla að skipta bróðurlega á milli Skagastrandar og Akureyrar. Geri nefnilega fastalega ráð fyrir að allir vilji fá mig og hafa mig sem allra lengst enda með afbrigðum skemmtileg.