þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Nú er ég afar hrifin af hverskonar íþróttum í sjónvarpi en skemmtanagildið felst fyrst og fremst í því að ég er að horfa á þá bestu. Hvort sem það er heimsmeistaramót í fótbolta, Ólympíuleikar eða einhvers konar Evrópumót, þá veit ég að ég er að horfa á rjómann, þá allra bestu á sínu sviði. En í gær var bikarleikur í fótbolta í sjónvarpi allra landsmanna á "prime-time" eins og það er kallað í Ameríkunni. Ég var ekki hrifin. Íslenskur fótbolti nær nefnilega ekki upp í rjóma-kategoríuna. Ég veit að þetta er alls ekki fótbolti á heimsmælikvarða þótt ég hafi svosem ekki mikið vit á íþróttinni. Til þess að nenna að horfa á þessa leiki þyrfti ég helst að eiga einhvern nákomin ættingja í öðru liðinu á vellinum en ættingjar mínir hafa nú ekki verið þekktir fyrir mikla fótbolta- eða íþróttaiðkun yfir höfuð.

En svo ég sýni nú vott af sanngirni þá eru sjálfsagt einhverjir þarna úti sem sitja límdir fyrir framan skjáinn og þetta er jú sjónvarp allra landsmanna, líka furðulegra minnihlutahópa. Verst er þó finnst mér að leiðindin halda áfram í kvöld því þetta var ekki einu sinni úrslitaleikurinn heldur undanúrslitaleikur. Eldhúsdagsumræður á Alþingi taka þó bara eitt kvöld.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home