þriðjudagur, september 23, 2003

Ég er að verða vön að vakna alltaf eldsnemma á morgnanna. Nú get ég ekki lengur farið á fætur 20 mínútum áður en á á að mæta í vinnuna eins og ég gerði heima. Þegar skólinn byrjar kl. 8 verð ég að fara á fætur fyrir 7. Ég hef einu sinni sofið til 11 síðan ég kom hingað, ég veit að margir trúa þessu ekki en svona er þetta samt.
Í morgun fór ég eins og venjulega í strætó og í fyrsta skipti síðan ég kom hingað var svoldið kalt úti, svona um 10 stiga hiti eða svo. Ég fer inn á endastöð þannig að strætóbílstjórarnir þurfa oft aðeins að spjalla við mann nema þeir hafi eitthvað annað að gera eins og t.d reykja eina sígarettu eða tvær. Bílstjóri morgunsins þurfti ekki að reykja svo hann spjallaði við mig um veðrið. Eða meira hann talaði, ég sagði "hvad siger du?" og jánkaði svo þegar ég skildi hann. Megininntakið í spjallinu var að sumarið væri búið og nú yrðum við að fara að klæða okkur betur.
Í skólanum náði ég að komast í hóp. Ég verð semsagt ekki social úrhrak í skólanum. Við erum fjögur í hóp, danskur strákur, pólverji, stelpa frá Ungverjalandi og ég. Við ætlum að skrifa um stækkun Evrópusambandsins og áhrif þess á fullveldi nýju ríkjana með tilliti til stjórnarskrár sambandsins sem nú er í smíðum í Brussel. Og af augljósum ástæðum ætlum við að taka Pólland og Ungverjaland sérstaklega fyrir. Spennandi ekki satt.
Annars er ég ekki alveg að fatta þennan skóla. Ég er í masters námi og hélt einhvern veginn að það yrði miklu meira og erfiðara allt en BA námið. Ég er ekki farin að sjá það ennþá. Það er svipað mikið lesefni og ég er yfirleitt í skólanum fjóra tíma á dag. Svo koma dagar sem ég þarf alls ekkert að mæta vegna þess að það eru einhver svona sérstök námskeið sem ég hef ekki áhuga á og eru ekki til prófs. Í næstu viku verð ég t.d. í fríi á þriðjudag og miðvikudag vegna þess að það verður "International Workshop on Cultural Exchange Between Nepal and Denmark. Theme: Gender and Social Change in Nepal - Political and Cultural Implications". Ég varð bara að setja allt nafnið inn hérna. Mér dettur ekki í hug að mæta á þetta. Ég yrði eins og fiskur á þurru landi. Veit ekki svo mikið um samband Danmerkur og Nepals og hef bara engan sérstakan áhuga á því. Svo verður eitt próf í lok október upp úr öllu lesefninu og eftir það þarf ég ekki að mæta meira í skólann þessa önn. Í nóvember og október verðum við bara í því að gera þetta verkefni sem á að vera um 50 bls. að lengd. Ekki það að ég vilji vera að kvarta, þetta er fínt, og svo kemur kannski í ljós að prófið verður svaka erfitt eða verkefnið miklu meira en ég ímynda mér nú. Þá yrði ég að éta þetta allt ofan í mig aftur.
Jæja ég blaðra og blaðra, það er bara ekkert skemmtilegt í sjónvarpinu. Nóg í bili samt. Hilsen frá Aalborg.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home