föstudagur, nóvember 15, 2002

Mér sýnist að allir séu byrjaðir á þessu svo að ég verð að vera maður með mönnum og gera þetta líka. Ég ráfaði einhvern veginn inn á reykjalin.com, sem by the way er rosalega flott síða, og sá þar bloggið þeirra bloggsystra Dagnýjar og Evu ex bekkjarsystra minna úr MA. Þar voru svo linkar yfir á fleiri Gjéara, Auði, Valda, Huginn... og ég komst að því að það er svo miklu skemmtilegra að lesa blogg þeirra sem maður þekkir eða í það minnsta kannast við. Svo sá ég að hún Hrafnhildur vinnufélagi minn var að gera þetta og hún sýndi mér basic atriðin. Þetta verður voðalega einfalt fyrst, ég á eftir að læra að setja inn linka, myndir og þess háttar en það kemur seinna.
Svo þetta var forsagan. Þetta er annars ansi skondið form. Hér skrifa ég svona semi-opinberlega en samt veit ég ekki hvort og þá hverjir lesa þetta. Þetta er duldið eins og gamla dagbókin en samt ekki því hér er alls ekki hægt að skrifa allt. Ég get ekki skrifað hér hvað þessi eða hinn er leiðinlegur og ekki get ég tuðað yfir einstökum kúnnum ef einhver af yfirmönnum mínum skyldi lesa þetta. Það yrði sjálfsagt litið á það sem trúnaðarbrest eða eitthvað álíka. Hér verður semsagt hamrað inn allskonar bull og rugl á næstunni. Suma daga kemur inn heill hellingur sérstaklega þegar ég er á næturvöktum. En þegar ég verð í fríi verður bloggið líka í fríi. Það er nefnilega þannig að þegar ég er í fríi þá kem ég ekki nálægt tölvum, það er nóg að sitja fyrir framan þessi skrímsli í vinnunni. Ég held meira segja að ég hafi ekki kveikt á tölvunni minni heima síðan 3. okt. þegar í kláraði og skilaði BA-ritgerðinni.
Well, tíminn líður hægt núna ekki hratt eins og á gervihnattaöldinni í kvæðinu góða. Það er einn og hálfur tími eftir af vaktinni og lítið að gera. Svo sem ekki skrítið á þessum tíma sólarhringsins. Ég ætti að byrja á bókinni sem ég kom með í vinnuna, Útlendingurinn eftir Albert Camus, sem er víst í hópi þekktustu skáldsagna 20. aldarinnar ef marka má bakhlið bókarinnar. Ég verð að fara að drífa mig á borgarbókasafnið, þetta er síðasta bókin.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home