laugardagur, nóvember 23, 2002

Ég átti ekki að mæta í vinnuna fyrr en annað kvöld en Dagný hringdi í mig og bað mig að taka aukavakt í nótt. Ég var alin upp við það að vinna væri mannbætandi á allan hátt og þar af leiðandi væri það hreinn aumingjaskapur að neita aukavinnu þegar hún stæði til boða.
Svo ég mætti í vinnuna kl. 23 og núna kl. 2 þá erum við Jón búin að gera allt sem við þurfum að gera á vaktinni, nú er bara að sitja og svara þeim sem hringja en við verðum hér til 9 í fyrramálið. Á þessum tíma hringja ekki svo margir, fólk verður að ná að komast út á djammið og týna símanum sínum áður en það hringir hingað. Og þetta er Ísland svo að það verður ekki fyrr en eftir kl. 5 í nótt. Þannig að við sitjum hér, ég að blogga og Jón að hlæja að hinni klassísku mynd Coyote Ugly sem myndi væntanlega útleggjast á íslensku sem "Ljótur sléttuúlfur". Þetta er afar skemmtileg mynd um unga konu sem fer til stórborgarinnar til þess að koma tónlist sinni á framfæri. Það reynist henni hinsvegar erfitt svo hún leitar annara leiða til þess að framfæra sér og fer að vinna á bar þar sem barstúlkurnar eru aðalaðdráttaraflið. Þær eru sérstaklega hressar og frjálslegar, dansa upp á borðum, dissa feita karlmenn, kvekja í og hella yfir sig vatni. Þessi mynd er mjög áhugaverð og núna þegar ég horfi á þær stöllur dansa línudans upp á borði langar mig svakalega mikið að verða eins svöl og þær eru.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home