miðvikudagur, nóvember 27, 2002

Þá er ég mætt til starfa eftir tveggja daga frí. Mánudagurinn fór reyndar að mestu í svefn og slatti af gærdeginum líka. Merkilegt hvað maður verður lúin af þessum næturvöktum.

Í gær þegar ég loksins fór á fætur gerði ég helling af engu fram eftir degi og naut þess alveg í botn. Begga var líka að læra þannig að það gerði upplifunina enn betri. Um kl. sex fór ég svo í mat til afa og ömmu. Þar fékk týpískan ömmumat, lærissneiðar með hnausþykkri sósu, kartöflur, sultu, grænar baunir og salat og svo auðvitað kók með sem er keypt sérstaklega fyrir svona tilefni.
Það fyrsta sem afi sagði við mig þegar ég kom innúr dyrunum var:"Ertu í megrun?" Hann sá mig síðast fyrir mánuði síðan og síðan þá hef ég kannski lést um 1-2 kíló svona til þess að undirbúa mig fyrir jólakílóin. Afi er alveg merkilegur með þetta, hann tekur alltaf eftir öllu svona. Kannski hefur þetta eitthvað með það að gera að hann var bóndi í einhver 50 ár, horfði og fylgdist með kindum á hverjum einasta degi. Hann þekkti þær t.d. allar með nafni, einhverjar 300-400 skjátur. Nú er ég ekki beinlínis að líkja mér við kind en afi hefur örugglega reynslu í því að taka eftir smáatriðum. Og nú hefur hann engar rollur til þess að fylgjast með þannig að við barnabörnin erum komin í staðinn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home